Karellen

Velkomin í skólann

Kæra leikskólabarn og fjölskylda. Verið hjartanlega velkominn í Leirvogstunguskóla

Um Leirvogstunguskóla


Leirvogstunguskóli tók til starfa 17. ágúst árið 2011 og var rekinn sem leikskóladeild frá Reykjakoti til september 2014. Í skólanum eru sex deildir og dvelja þar um 112 börn.

Við leggjum áherslu á markvissa og faglega kennslu í gegnum hreyfingu, leik og skynjun en hugmyndafræði skólans byggir á kennsluaðferðinni "Leikur að læra" þar sem samætting hreyfingar við stærðfræði, bókstafa- og hljóða,-lita og formkennslu er höfð að leiðarljósi. Auk þess leggjum við ríka áherslu á gott foreldrasamstarf ásamt því að mæta hverju barni eins og það er með jákvæðni, einfaldleika og sköpun í stað tilbúinna lausna. Útivera er mikilvægur þáttur í þroska hvers barns og njótum við góðs af stórkostlegri og ósnortinni náttúru Mosfellsbæjar þar sem við förum gjarnan í gönguferðir og ýmisskonar leiki utan leikskólalóðar.

Leikskólastjóri er Guðrún Björg Pálsdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Kolbrún Halla Ingólfsdóttir.

Dagskipulag

Dagskipulag er skýr rammi utan um leikskólastarfið þar sem ríkir jafnvægi frjálsra og skipulagðra stunda, inniveru og útiveru.

Skipulag og ákveðnar tímasetningar dagsins gefa starfinu festu og öryggi fyrir börn, starfsfólk og foreldra en er þó sveigjanlegt og veitir svigrúm til þess að bregða út af þegar þörf er á.


7.30 leikskólinn opnar 12.30 hvíld/róleg stund
8.00 valtími 13.00 hópatími
9.00 morgunmatur 13.50 valtími
9.30 valtími 15.00 nónhressing
10.30 hópatími 15.30 valtími
12.00 hádegismatur 16.15 deildar sameinast
17.00 leikskólinn lokar

Hópatímar

Hópatímar eru tvisvar á dag. Þeim er stýrt af fullorðnum þar sem skapaður er vandaður leikrammi fyrir jafningjahópa. Í hópatímum eru unnin verkefni sem krefjast aðstoðar eða eru ætluð til að þjálfa ákveðna færni. Í hópatímun er farið í " leikur að læra", ýmiskonar leiki, leikfimi, föndrað, tónlistartíma, útiveru, smíði, dans, og margt margt fleira. Hver hópur fer út a.m.k. einu sinni á dag.

Val

Í valtímum er það sama í boði á hverjum degi: Útisvæði, dýnustofa, stórukubbar, föndurkrókur, leirkrókur og litlukubbar.Valtíminn er leiktími barnanna þar sem hinn fullorðni er aðeins til eftirlits og aðstoðar.

Úr lögum um leikskóla

2. gr. Markmið

Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.

Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:

a)að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,

b)að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,

c)að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,

d)að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,

e) að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,

f)að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.[2]


Ýmsar hagnýtar upplýsingar


Best er fyrir barn að mæta alltaf á svipuðum tíma í leikskólann. Börn eru vanaföst og það skapar öryggi fyrir barnið að vita alltaf hver dagskráin er komin þegar það mætir.

  • Kveðjustundir í fataklefa

Ef kveðjustundir verða of langar getur það skapað óöryggi hjá barninu sem veit ekki nákvæmlega hvort mamma eða pabbi ætla að stoppa í fataklefanum eða ekki. Vegna þessa hvetjum við foreldra til að hafa kveðjustundirnar stuttar, öruggar en fullar af trausti. Munum að kveðjustundin lengir ekki jákvæða samveru fjölskyldunnar heldur lengir á skilnaðarstund sem getur verið barninu erfið.

  • Börn sótt

Mikilvægt er að börn séu sótt á réttum tíma. Ef einhver annar aðili en foreldrar sækja barnið verður að láta starfsfólk kjarnans vita. Aðeins þeir sem verða 12 ára á árinu og eldri mega sækja börn í leikskólann.

  • Veikindi

Leikskólinn getur ekki tekið á móti veiku barni. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindunum heima og mæti aftur í leikskólann frískt og tilbúið að taka þátt í daglegri starfsemi úti sem inni. Mikilvægt er að veikindi séu tilkynnt. Börnum er ekki gefin lyf í leikskólanum nema brýna nauðsyn beri til.

  • Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru tvisvar á ári, einu sinni á haustönn og einu sinni á vorönn. Viðtölin eru á laugardögum í nóvember og mars-apríl. Foreldrar geta hvenær sem er óskað eftir viðtali við deildarstjóra, hópstjóra eða leikskólastjóra.

  • Vefsíða Leirvogstunguskóla

Leirvogstunguskóli er með mjög glæsilega vefsíðu á netinu. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um leikskólann s.s. starfsfólk, fréttir, matseðil vikunnar, skóladagatal, námskrá, tengla á lög og reglugerðir og margt fleira


  • Hlífðar- og aukaföt

Mikilvægt er að barnið hafi þau útiföt sem henta hverju sinni. Í töskunni verður alltaf að vera pollagalli, stígvél, þykk peysa(flíspeysa), ullarsokkar, húfa og vettlingar. Í körfunni í fataklefa verða að vera aukaföt s.s. nærföt, sokkar, sokkabuxur (gammósíur), buxur og peysa. Einnig er gott að hafa meðferðis auka vettlinga og húfu ef blautt og kalt er í veðri.

  • Merkingar fatnaðar

Afar mikilvægt er að merkja föt barnanna því það er alltaf leiðinlegt þegar eitthvað týnist. Nær ógjörningur er fyrir starfsfólk að þekkja föt allra barnanna en merkingar auðvelda okkur mjög starfið.

  • Mætingar barna

Best er fyrir barnið að mæta alltaf á svipuðum tíma í leikskólann. Börn eru vanaföst og það skapar öryggi fyrir barnið að vita alltaf hvert dagskráin er komin þegar það mætir.


Dót að heiman

Allt dót að heiman á að vera heima. Ef barn kemur með dót að heiman skapar það óþægindi bæði fyrir hin börnin og kennarana. Gott er að barnið venjist því strax í byrjun að dót á að vera heima. Reglulega eru haldnir dótadagar þar sem í boði er að koma með dót. Kúrudýr og dót sem börn þurfa sér til halds og trausts í hvíld og aðlögun eru að sjálfsögðu velkomin.

  • Afmæli

Þegar börn eiga afmæli höldum við upp á það hér í skólanum. Afmælisbarnið býður börnunum á deildinni upp á melónur eða aðra girnilega ávexti. Afmælisbarnið er tollerað, það fær kórónu og afmælisskikkju og sungið er fyrir það.

  • Skóladagatal

Á hverju hausti er haldinn foreldrafundur. Þar er starfsemi skólans kynnt og fá foreldrar dagatal afhent, um dagskrá skólaársins og fyrir hugaðar uppákomur, skemmtanir og lokanir. Skipulagsdagar skólans eru þrír og einn námskeiðsdagur, þessa daga er skólinn lokaður. Starfsmannafundir eru haldnir tvisvar á önn og lokar skólinn kl. 14.00 þá daga. Skóladagatalið er einnig hægt að nálgast á netinu

© 2016 - 2022 Karellen