Námskrá skólans

Efnisyfirlit

Inngangur...............................................................

 1. Saga skólans……………………………...
 2. Starfsfólk……………………………….…
 3. Hlutverk og markmið……………………
 4. Hugmyndafræði…………………………

4.1. Hjallastefnan………………….

4.2. Meginreglur…………………..

4.3. Kynjaskipting…………………

4.4. Agi………………….…………

4.5. Einfaldleiki…………………….

5. Dagskipulag………………………………

5.1. Valtímar……………….………

5.1.1. Leirkrókur………………

5.1.2. Leikstofa/dýnustofa…….

5.1.3. Kubbakrókur……………

5.1.4. Útisvæði………………..

5.1.5. Föndurkrókur…………...

5.1.6. Sullkrókur……………....

5.1.7. Stóru kubbakrókur……....

5.2. Hópatímar…………………….

6. Börnin…………………………………….

6.1. Yngstu börnin/könnunarleikur.

6.2. Mið börnin/könnunaraðferðin..

6.3. Elstu börnin…………………..

6.3.1. Samskiptahæfni…………

6.3.2. Hljóðkerfisvitund/tjáning.

6.3.3. Rökhugsun/talnaskilningur

7. Lotuvinna………………………………..

7.1. Tónlist……………………….

7.2. Hreyfing……………………..

7.3. Umhverfi og náttúra………….

7.4. Myndsköpun………………….

7.5. Tjáning og framkoma…………

7.6. Samskipti/lífsleikni……………

8. Matseðlar/hollusta…………………………

9. Sérkennsla…………………………………

10. Heimasíðan………………………………

11. Foreldrasamvinna……………………….

11.1. Foreldrafundir……………….

11.2. Foreldrakaffi...……………….

11.3. Foreldraviðtöl………………..

11.4. Foreldrafræðsla………………

12. Hefðir og hátíðir…………………………

12.1. Söngfundir…………………..

12.2. Dótadagur……………………

12.3. Náttfatadagur………………….

12.4. Desemberdagskrá……………

12.5. Þorrablót……………………..

12.6. Vinavika……………………..

12.7. Hattadagur……………………

12.8. Bolludagur……………………

12.9. Sprengidagur…………………

12.10. Öskudagur…………………..

12.11. Búningadagur……………….

12.12. Menningarvika……………..

12.13. Sveitaferðir………………....

12.14. Vorhátíð…………………….

12.15. Afmæli……………………..

12.16. Útskriftarferð……………….

13. Hagnýtar upplýsingar……………………

13.1. Útbúnaður barna……………..

13.2. Merkingar……………………

13.3.Kveðjustundir í fataklefa…….

13.4. Börn sótt……………………..

13.5. Veikindi/slys…………………

13.6. Mætingar barna………………

13.7. Leikföng að heiman..………..

13.8. Skóladagatal…………………

13.9. Útskriftarbækur……………..

14. Rekstraraðili……………………………...

14.1. Skólaskrifstofa……………….

14.2. Leikskólafulltrúi…………….

14.3. Sérfræðiþjónusta…………….

15. Samvinna við aðrar stofnanir……………

15.1. Grunnskólar…………………..

15.2. Íþróttahús…………………….

15.3. Listaskóli…………………….

16. Mat á leikskólastarfi……………………..

16.1. Ársskýrsla……………………

16.2. Foreldrakönnun………………

16.3. Kannanir á heimasíðunni…….

16.4. Hópa- og valtímatalning……..

16.5. Matslistar og próf……………

Lokaorð……………………………………….

Heimildaskrá…………………………………

Inngangur

Skólanámskrá leikskólans Reykjakots veitir greinar-góðar upplýsingar um starf leikskólans. Hún er leiðarvísir starfsfólks og leiðbeinandi plagg fyrir foreldra og aðra sem vilja kynna sér starfsemi leikskólans. Í Reykjakoti er unnið eftir Aðalnámskrá leikskóla (1999), Skólastefnu Mosfellsbæjar-heildstæðri skólastefnu (2002) og í anda Hjallastefnunnar.

1. Saga skólans

Leikskólinn Reykjakot í Mosfellsbæ tók til starfa í mars 1994 og fyrsti leikskólastjórinn var Halla Jörundardóttir. Strax í upphafi tók hún þá stefnu að nýta að mestu náttúrulegan efnivið í stað hefðbundinna leikfanga og gaf skólinn sig sérstaklega út fyrir að byggja kennsluna á notkun svokallaðra einingakubba (Unit blocks) í anda Caroline Pratt.

Árið 1996 tók María Ölveig Ölversdóttir við stöðu leikskólastjóra. Hún innleiddiHjallastefnuna á Reykjakot og hefur skólinn hagnýtt námskrá hennar að mestu leyti síðan enda féll Hjallastefnan vel að þeim grunni sem skólinn byggði á. Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur Hjallastefnunnar, stýrði skólanum frá 2000 til 2002 þar til Gyða Vigfúsdóttir tók við stjórnartaumunum og stýrir hún skólanum í dag.

Upphaflega var Reykjakot þriggja kjarna/deilda leikskóli en árið 2001 var komið fyrir færanlegum kennslustofum við skólann. Skólinn var rekinn í tveimur húsum með samliggjandi lóðir og skiptist leikskólinn þá í fimm kjarna sem nefnast eftir litum; Rauðikjarni, Grænikjarni, Bláikjarni, Gulikjarni drengir og Gulikjarni stúlkur. Sötta deildin bættist við í ágúst 2004 en það var leikskóladeild Reykjakots við Varmárskóla, sem í daglegu tali kallast Varmárdeild. Á deildinni er unnið þróunarverkefni með elstu börnum leikskólans þar sem leitast er við að tengja saman leik og grunnskóla og nýta m.a. til þess aðstöðu og þekkingu grunnskólans.Varmárskóli tók yfir rekstur Varmárdeildar haustið 2008.

Í dag er Reykjakot 5 kjarna leikskóli með u.þ.b. 100 börn á aldrinum 20 mánaða til 6 ára. Leikskólastjóri er Gyða Vigfúsdóttir og aðstoðarleikskólastjóri er Herdís Rós Kjartansdóttir.

Reykjakot er staðsett í fallegu og náttúrulegu umhverfi. Stutt er í fjallgöngur og berjamó á haustin, einnig er gaman að skella sér með nesti niður að Varmánni eða í Reykjalundarskóg, heimsækja grænmetisbændur, hesta og allt það skemmtilega sem nágrennið býður upp á. Mikill mannauður hefur safnast að skólanum undanfarin ár en hann liggur í frábæru starfsfólki og yndislegum börnum.

2. Starfsfólk

Leikskólastjóri stjórnar daglegri starfsemi leikskólans og ber ábyrgð á rekstri skólans gagnvart yfirmanni. Hann ber einnig ábyrgð á faglegu starfi, viðhaldi, ráðningu starfsmanna og samvinnu við aðrar stofnanir.

Aðstoðarleikskólastjóri er aðstoðarmaður leikskóla-stjóra og staðgengill í fjarveru hans. Hann vinnur ásamt leikskólastjóra að daglegri stjórnun leikskólans og skipulagningu uppeldisstarfsins.

Sérkennslustjóri heldur utan um alla sérkennslu í leikskólanum í samvinnu við leikskólastjóra. Hann leggur matslista fyrir börn og foreldra og vinnur náið með sérfræðiþjónustu skólaskrifstofu. Hann ráðleggur kjarna- og hópstjórum og sér um þjálfun barna sem þess þurfa.

Kjarnastjóri ber ábyrgð á stjórnun, skipulagningu, framkvæmd og mati starfsins á kjarnanum. Hann annast daglega verkstjórn og ber ábyrgð á að miðla upplýsingum innan kjarnans, milli leikskólastjóra og kjarnans og út til hinna kjarnanna.

Starfsmaður leikskóla vinnur undir stjórn kjarnastjóra að uppeldisstörfum. Ef starfsmaðurinn er hópstjóri annast hann skipulagningu hópastarfsins og foreldrasamstarfs undir leiðsögn kjarnastjóra.

Starfsfólki Reykjakots er gert að kynna sér Aðal-námskrá leikskóla (1999), Námskrá Reykjakots, Skólastefnu Mosfellsbæjar (2002) og Handbók Hjalla-stefnunnar (1999). Allir starfsmenn leikskólans eru bundnir þagnarskyldu.

Í kjarasamningum er kveðið á um endur- og símenntun starfsmanna og er starfsfólk hvatt til að sækja a.m.k. 18 kennslustundir á ári í formi fyrirlestra og námskeiða.

3. Hlutverk og markmið

Í Reykjakoti er unnið eftir Aðalnámskrá leikskóla (1999), Skólastefnu Mosfellsbæjar (2002) og í anda Hjallastefnunnar. Hlutverk og markmið leikskólans eru í samræmi við það.

"Foreldrar bera frumábyrgð á uppeldi barna sinna en leikskólastarfið er viðbót við það uppeldi sem börnin fá á heimilum sínum. Leikskólinn er fyrir öll börn, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu eða trú." (Aðalnámskrá leikskóla, 1999, bls. 7)

Í Lögum um leikskóla (1994) segir að meginmarkmið með uppeldi í leikskóla skulu vera:

- að veita börnum umönnun, búa þeim hollt uppeldisumhverfi og örugg leikskilyrði,

- að gefa börnum kost á að taka þátt í leik og starfi og njóta fjölbreyttra uppeldiskosta barnahópsins undir leiðsögn leikskólakennara,

- að kappkosta í samvinnu við heimilin að efla alhliða þroska barna í samræmi við eðli og þarfir hvers og eins og leitast við að hlúa að þeim andlega og líkamlega svo þau fái notið bernsku sinnar,

- að stuðla að umburðarlyndi og víðsýni barna og jafna uppeldisstöðu þeirra í hvívetna,

- að efla kristilegt siðgæði barna og leggja grundvöll að því að börnin verði sjálfstæðir, hugsandi, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun

- að rækta tjáningar- og sköpunarmátt barna í þeim tilgangi að styrkja sjálfsmynd þeirra, öryggi og getu til að leysa mál sín á friðsamlegan hátt. (Lög um leikskóla, 1994).

Í Reykjakoti er unnið mjög metnaðarfullt starf í anda Hjallastefnunnar þar sem sérstök áhersla er lögð á:

 1. Virðingu fyrir einstaklingnum og þörfum hvers nemanda.
 2. Jákvæðni, gleði og kærleik í öllum samskiptum.
 3. Einfaldleika, þar sem umhverfi, búnaður og dagskipulag er einfalt og gagnsætt.
 4. Opið leikefni sem ýtir undir ímyndun og sköpun.
 5. Náttúruna, þar sem nýtni, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni er höfð að leiðarljósi.
 6. Aga og hegðunarkennslu á hreinskiptinn hátt, rósemd og streituleysi.

4. Hugmyndafræði

4.1. Hjallastefnan

Reykjakot hefur um árabil unnið í anda Hjallastefnunnar. Hjalla-stefnan er alíslensk hugmynda-fræði sem notuð hefur verið í leikskólastarfi allt frá árinu 1989 þegar Margrét Pála Ólafsdóttir, höfundur stefnunnar, tók við stjórn leikskólans Hjalla í Hafnarfirði. Hjallastefnan byggir á kynjaskiptingu, jafnrétti, einfaldleika, jákvæðni, virðingu, aga og hófsemi.

Námskrá Hjallastefnunnar hefur notið sívaxandi velgengni og virðingar undanfarin ár og hefur hlotið sérstakt lof fyrir áherslu sína á jafnréttisuppeldi, þar á meðal hlaut Hjallastefnan viðurkenningu Jafnréttisráðs Íslands árið 1996 fyrir sérstakt átak í jafnréttismálum auk þess sem Hjalli hlaut hvatningarverðlaun Jafnréttisnefndar Hafnarfjarðar árið 2001. (Fræðsluvefur Hjallastefnunnar, ed) Árið 2006 hlaut Margrét Pála riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín að uppeldis- og menntamálum.

4.2. Meginreglur Hjallastefnunnar

1. Hjallastefnunni er ætlað að mæta hverju barni eins og það er og viðurkenna ólíkar þarfir einstaklinga.

2. Hjallastefnunni er ætlað að byggja upp þau viðhorf í starfi að jákvæðni, gleði og kærleikur ráði ávallt ferðinni í samskiptum milli starfs-fólks og gagnvart börnum og foreldrum.

3. Hjallastefnunni er ætlað að skapa leikskóla-samfélag sem er einfalt og gagnsætt og börn skilja. og er þeim viðráðanlegt í takti við aldur þeirra, þroska og getu.

4. Hjallastefnunni er ætlað að bjóða upp á opið leikefni þar sem ímyndun barna ræður ferðinni og börn skapa sinn eigin leikheim í friði innan ramma leikskólans.

5. Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum að virða umhverfið og umgangast það með nýtni, nægjusemi og hófsemi. Þeim er kennt að hirða um náttúruna ásamt endurvinnslu eftir föngum.

6. Hjallastefnunni er ætlað að kenna börnum aga og hegðun á jákvæðan, hlýlegan og hrein-skiptinn hátt þar sem taminn vilji er leiðin til öryggis og frelsis fyrir alla.

4.3. Kynjaskipting

Eitt af markmiðum Hjallastefnunnar er jafnrétti stúlkna og drengja. Til að ná settu marki er kynjaskipting notuð innan leikskólans. Rannsóknir hafa sýnt að drengir fá 75-80% af allri athygli kennara og með því að hafa stúlkurnar og drengina í sitt hvorum kjarnanum tryggjum við báðum kynjum alla athygli kennara síns og gefum hvoru kyni um sig tækifæri til þess að leika sér og læra á sínum eigin forsendum án þess að hitt kynið trufli. Stúlkur og drengir á leikskólaaldri leika sér ólíkt, hafa ólík áhugamál, ólíka menningu og ólíka færni. Í kynjaskiptu umhverfi er hitt kynið ekki til samanburðar svo að drengirnir okkar teikna, mála, leira, klippa og föndra af hjartans lyst og finnst þeir flinkir! Á sama hátt nota stúlkurnar okkar dýnustofuna til ærslaleikja og stunda útivist og hreyfingu af kappi þar sem drengirnir eru ekki til samanburðar. Með þessu ná bæði kyn að æfa færni sem öllu fólki er nauðsynleg og mikilvæg án þess að þurfa að "láta í minni pokann" fyrir hinu kyninu.

Endanlegur tilgangur með kynjaskiptingunni er síðan auðvitað farsæl blöndun kynjanna og það æfum við með reglulegum samveru-stundum og í blönduðum hópa-tímum. Þar forðumst við að hafa verkefni sem henta betur öðru kyninu, heldur leggjum allt kapp á að hafa gaman til þess að börnin hlakki til samvistanna og finnist eftirsóknarvert að hittast.

4.4. Agi

Hjallastefnan leggur áherslu á að börnin læri aga og leiðin að því marki er fyrst og fremst skýr rammi. Í agalausu umhverfi, þar sem allir haga sér eins og þeim sýnist, verður alltaf einhver sem treðst undir og réttur þess sterkasta ræður á kostnað hinna veikari. Leikskóli sem vinnur í anda Hjallastefnunnar setur skýran ytri ramma þar sem dagskráin gengur eins fyrir sig á hverjum degi. Reglur eru fáar en skýrar, börnin ganga í röð og skiptast á og sýnilegar merkingar eru til staðar á þeim stöðum þar sem ætlast er til að börnin gangi frá sjálf. Þessi ytri rammi er svo einfaldur og skýr að mjög ung börn læra á hann á fáum dögum. Frelsi felst ekki endilega í því að gera alltaf það sem mann lystir heldur að vita nákvæmlega hvað er í boði og hvað ekki og gera svo það sem lystir innan þeirra marka. Sá sem kann á umhverfi sitt er frjáls.

Agi er einfaldlega að fara eftir reglu. Viðbrögð annarra við hegðun ákvarðar hvers konar regla lærist. Reglu verður alltaf að fylgja eftir af festu og öryggi því ef barn lærir að smeygja sér framhjá reglu, t.d. með gráti og mótmælum lærist óregla. Leiðin til aga er að fylgja reglu og það lærist með æfingu eins og allt annað. Að aga barn er að "temja hinn guðdómlega vilja sem börn hafa í farteskinu til að lifa af." Með tamningu erum við ekki að brjóta viljann né láta hann vaxa villtan eins og illgresi. Við temjum þennan guðdómlega vilja til þess að hann nýtist barninu áfram sem drifkraftur undir agaðri stjórn.

4.5. Einfaldleiki

Umhverfi, búnaður og dagskipulag er einfalt, merkingarbært og gagnsætt í Reykjakoti. Hver hlutur á sinn merkta stað, hólf barnanna í fataklefa eru merkt með nafni og plássin sem þau sitja á í valhringnum eru einnig merkt. Ef umhverfið er nógu einfalt eiga allir auðvelt að rekja sig áfram og öðlast skilning á því og til hvers er ætlast af þeim. Einfaldleiki þýðir að minna er alltaf betra en meira. Þess vegna er fjölda leikefnis stillt í hóf, myndir og listaverk eru ekki hengd upp um alla veggi því það veldur áreiti sem truflað getur börn sem eiga við hegðunarvanda að etja. Myndir eru hengdar upp í stuttan tíma í einu og fjölda þeirra stillt í hóf. (Fræðsluvefur Hjallastefnunnar, ed, Margrét Pála Ólafsdóttir, 1999.)

5. Dagskipulag

Dagskipulag í Reykjakoti er alltaf eins hvað ytri ramma varðar til að skapa þekkingu og öryggi fyrir hvert barn. Þar skiptast á hópatímar og val, ásamt matartímum. Hópatímarnir innihalda hina formlegu kennslu í umsjón kennarans en valtímarnir gefa uppgötvunarnámi barnanna sjálfra umgjörð þar sem leikurinn fer fram ótruflaður af hinum fullorðna sem á valtímanum er einungis í gæslu- og aðstoðarhlutverki.

Dagskipulag

7.30 Leikskólinn opnar

8.00 Valtími, börn að mæta

9.00 Morgunmatur

9.30 Valfundur, valtími

10.30 Hópatími

12.00 Hádegismatur

12.30 Hópatími

14.00 Valfundur, valtími

15.00 Nónhressing

15.30 Valfundur, valtími

17.30 Leikskólinn lokar

5.1. Valtímar

Valtími hefst með valfundi þar sem börn hvers kjarna safnast saman á plássunum sínum og velja sér verkefni næstu klukkustundar. Einn kennari stýrir valfundinum og skráir niður hvað börnin velja sér. Börnum er algerlega frjálst að velja sér það viðfangsefni sem þau sjálf kjósa og leggjum við mikla áherslu á að valinu sé ekki ,,stýrt" á neinn hátt; þ.e. að kennarinn hlutist ekki til um hvað börnin velja. Á valfundi fá börnin tækifæri til að æfa vilja sinn og taka ákvarðanir, gagnstætt við hópatímana þar sem þau æfast fremur í að fara eftir fyrirmælum kennarans. Þó svo valtímanum sé fyrst og fremst ætlað að vera rammi um frjálsan leik barnanna er þó engin tilviljun hvaða viðfangsefni, og hvers konar leikefni er í boði því á bak við hvern krók og hvert verkfæri sem þar er í boði er ákveðinn tilgangur.

Fjöldi ,,plássa" í hverjum króki miðast alltaf við slétta tölu; 2, 4 eða 6 börn þar sem oddatala felur í sér hættu á að einhver verði ,,stakur" í leiknum. Börnin skiptast á að byrja valið svo að kerfið tryggir sjálfkrafa að öll börnin prófa alla krókana og geta því ekki ,,staðnað" í valinu. Fjöldi verkfæra í hverjum króki er líka fyrirfram ákveðinn.

5.1.1. Leirkrókur

Í leirkróknum er meginmálið að styrkja gripið, þ.e. hendurnar sjálfar þar sem sterkt grip er undirstaða allrar færni sem krefst notkunar handanna, bæði tangar-gripsins sem notast við að skrifa svo og færni í að meðhöndla alla hluti. Við notum heimagerðan leir, eða svokallað leikdeig sem er mátulega mjúkt til að auðvelt sé að hnoða það en þó nógu stíft til að það reyni vel á hendurnar. Við erum spör á alls kyns áhöld því það minnkar leirhnoðið. Aðaltólin í leirkróknum eru tréhnífar og rúllukefli. Annað er notað í hófi en þar má til dæmis nefna filmubox, ýmis form og lítil prik.

5.1.2 Leikstofa/dýnustofa

Leikstofan er vettvangurinn fyrir ímyndunar- og hlutverkaleiki sem margir fræðimenn vilja meina að sé eini alvöruleikurinn og eðlileg-asta tjáningarform barnsins.

Hlutverkaleikurinn gegnir m.a. mikilvægu hlutverki í siðgæðisþroska barna því hann æfir þau í að setja sig í spor annarra. Í leikstofunni höfum við dýnur, stóra svampkubba sem börnin geta byggt úr og teppi. Til viðbótar höfum við notað bolta og vasaljós þegar fer að dimma á veturna. Í leikstofunni er venjulega mikið fjör og börnin fá útrás og hreyfingu í leiknum auk þess sem verulega reynir á tengslamyndun og samskipti.

5.1.3. Kubbakrókur

Í kubbakrók eru notaðir einingakubbar. Þeir eru í stærðfræðilega réttum hlutföllum sem síðar meir munu auðvelda börnunum skilning á hlutföllum og brotum. Fyrir utan að fá tilfinningu fyrir stærðfræði-legum hlutföllum æfa börnin formhugsun í kubbaleikjunum auk þess sem þau fá töluverða grófhreyfingu.

5.1.4. Útisvæði

Á útisvæðinu er grófhreyfingin í mestri þjálfun auk þess sem líkamlegt úthald og þol eykst og jafnvægið æfist við klifur og príl. Á útisvæðinu skipta börnin sér mikið til sjálf eftir aldri; þ.e. yngri börnin leita mikið í sull, sandmokstur og drullumall en þau eldri fara frekar í hlutverkaleiki.

5.1.5. Föndurkrókur

Í föndurkróknum æfast fínhreyfingar, tangargrip og samhæfing augna og handa auk þess sem listræn útrás og félagsleg samskipti eflast. Í föndurkrók, eða listakrók eins og hann er oft kallaður, er fasta efnið; pappír, trélitir, límband og skæri og ítarefnið sem við bætum við er málningarlímband (sem hægt er að teikna á), marglitt bókaplast, vatnslitir og penslar. Í Reykjakoti notum við helst ekki tússliti þar sem þeir skemma tilfinninguna fyrir muninum á því að lita fast eða laust, en tré-, vax-, og klessuliti notum við mikið þar sem allar þessar tegundir hafa þann eiginleika að liturinn verður ljós ef litað er laust en dökkur ef litað er fast.

5.1.6. Sullkrókur

Í sullkróki leika börnin sér með volgt vatn og nota til þess áhöld eins og dósir, trekt, slöngubúta og svamp. Ítarefni í sullkróki er málning sem hrærð er út í vatnið, freyðibað og steinar. Að hella vatni á milli íláta æfir rúmskyn og skynjun auk þess sem volgt vatnið er notalegt og þar af leiðandi fylgir því slökun að sulla.

5.1.7. Stóru kubbakrókur

Stóru kubbarnir, (Hollow-kubbar), eru holir að innan og gera því börnunum kleift að byggja stórar byggingar sem þau geta jafnvel farið inn í. Það er einmitt stærsti kosturinn við stóru-kubbana; börnin geta farið inn í leikinn í stað

þess að vera utan við viðfangsefnið eins og þegar leikið er með minni kubba. Í stóru kubbunum fær hlutverkaleikurinn notið sín auk þess sem börnin þjálfast í grófhreyfingum og formhugsun því kubbarnir eru í stærðfræðilega réttum hlutföllum. Stundum er notað ítarefni en það eru þá efnisbútar eða teppi og málningarlímband. (Fræðsluvefur Hjallastef-unnar, ed)

5.2.Hópatímar

Hópatímar eru tvisvar á dag. Þeim er stýrt af fullorðnum þar sem skapaður er vandaður leikrammi fyrir jafningjahópa og unnin eru verkefni sem krefjast aðstoðar eða eru ætluð til að þjálfa ákveðna færni. Börnum er skipt í hópa eftir aldri. Í hópatímum er alltaf sami kennari með sömu börnin þannig að við getum sagt að kennarinn "eigi" sinn hóp. Hann ber ábyrgð á foreldrasamvinnu, tekur foreldraviðtöl, stýrir verkefnum sem unnin eru og er sérstakur málsvari og verndari þeirra barna sem eru í hópnum. Einnig borðar hann allar máltíðir með hópnum sínum. Með því móti myndar kennarinn oft sterk tengsl við börnin í hópnum sínum. Með þessu tryggjum við einstaklingsathygli fyrir hvert barn, enginn getur "gleymst". Foreldrar verða öruggari og vita að þeir geta leitað til eins ákveðins kennara varðandi málefni barns síns. (Fræðsluvefur Hjallastefnunnar, ed.)

Í hópatímum er hægt að gera næstum hvað sem er. Hægt er að fara í gönguferðir, fjallgöngur, dansa, leika sér úti, fara í þrautabrautir úti jafnt sem inni, syngja, semja sögur, æfa leikrit, mála, föndra, gera vísindarannsóknir, fara í ferðir, spila á hljóðfæri, heimsækja fyrirtæki og stofnanir, leika sér inni og margt, margt fleira sem andinn blæs kennurum og börnum í brjóst. Verkefni hópatíma verða að vera fjölbreytt og koma inn á öll námssvið leikskóla þ.e. hreyfingu, málrækt, tónlist, myndsköpun, menningu og samfélag, og náttúru og umhverfi. Þessi námssvið skarast og eru samtvinnuð undirstöðuþáttum alls leikskólastarfs. (Aðalnámskrá leikskóla, 1999.) Leiðarljós kennara í hópatímum og öllu leikskólastarfi er samt alltaf leikurinn og sú vitneskja að börn læra best í gegnum leikinn.

Markmið hvers hópatíma er ætíð að skemmta sér, hafa gaman og að allir taki virkan þátt í leiknum.

6. Börnin

6.1. Yngstu börnin/könnunarleikurinn

Á deildum yngstu barnanna er umönnun stór þáttur auk þess sem mikil áhersla er lögð á öryggi þeirra. Það að þeim líði vel er frumskilyrði þess að þau nái að þroskast og dafna. Mikil áhersla er lögð á samskipti þar sem vinátta, virðing og samhygð eru höfð að leiðarljósi.

Málörvun fléttast inn í sem flesta þætti leikskólastarfsins. Því er nauðsynlegt að tengja orð athöfn; að ræða við börnin í leik og starfi. Við eflum einnig orðaforða og hugtakaskilning í gegnum hreyfileiki, byggingarleiki og myndgerð svo eitthvað sé nefnt.

Við teljum að stór þáttur í málörvun barna sé fólginn í að lesa fyrir þau og lesum við oft fyrir börnin. Foreldrar eru líka hvattir til lesa fyrir börn sín.

Í starfi með yngstu börnunum er lögð áhersla á "líkamsþema" en þar er fjallað um líkamann, líkamsheiti og líkamsskynjun eins og sjón, heyrn, lykt, bragð o.s.frv. Þemað er unnið í gegnum myndlist, söngva, hreyfileiki, lestur bóka o.fl.

Könnunarleikurinn

Farið er í könnunarleik í hópatímum með yngstu börnunum en hann er liður í hinum frjálsa leik barnanna þar sem þau leika sér á eigin forsendum.

Ung börn hafa mikla þörf til að rannsaka og uppgötva upp á eigin spýtur og býður könnunarleikurinn upp á endalaus möguleika í þeim efnum. Upphafsmenn þessarar aðferðar eru Elinor Goldsmied og Sonja Jackson. Markmið könnunarleiksins er að börnin uppgötvi hluti og möguleika þeirra með snertingu, bragði, lykt, heyrn og sjón.

Allt upp í sjö börn vinna saman í hóp og fyrir þau eru lögð ýmiss konar verðlaus efni, svo sem dósir, plastflöskur, keðjur, þvottaklemmur og margt, margt fleira. Hlutirnir eiga gjarnan að hafa mismunandi áferð og lögun og vera úr ólíku efni.Börnin velja sér hluti og nota þá á margvíslegan hátt. Þau leika sér ótruflað án fyrirmæla frá kennurum. Í leiknum örva börnin skynfæri sín með því að snerta og skoða. Einnig reyna þau á gróf- og fínhreyfingar. Í gegnum könnunarleikinn er tækifæri til að efla alla þroskaþætti og ekki er síst fróðlegt að skoða samskipti barnanna. (Leikskólinn Stakkaborg, ed.)

6.2. Miðbörnin/könnunaraðferðin

(Project Approach)

Könnunaraðferðin (Project Approach) gengur út á það að tekið er fyrir ákveðið þema eða viðfangsefni í vissan tíma og gerð er ítarleg rannsókn á því út frá áhuga barnanna. Viðfangsefnið er venjulega tekið úr umhverfi sem börnin þekkja og það nálgast á þann hátt að það hafi persónulega merkingu fyrir barnið. Viðfangsefnið getur verið ákveðið hjá börnunum sjálfum eða kennaranum, en það er alltaf eðlislægur áhugi barnanna sem ræður ferðinni.

Aðalmarkmið könnunaraðferðarinnar er að þroska áhuga ungra barna. Gengið er út frá því hvaða þekkingu barnið hefur og hvernig má efla hana. Börnin eru aðstoðuð við að leita sér upplýsinga um viðfangsefnið, þau eru hvött til að spyrja spurninga og kennararnir spyrja þau opinna spurninga á móti.

Könnunaraðferðin er sérstaklega góð leið til að efla félagsfærni með hópavinnu, samræðum, að deila upplýsingum og reynslu, komast að samkomulagi og skilja orsök og afleiðingu.

Könnunaraðferðinni er skipt í þrjú stig, sem tákna upphaf, miðju og endi.

1. stig: Viðfangsefnið er afmarkað, við spyrjum spurninga og setjum upp vef þ.e. kennarinn ræðir við börnin um rannsóknarefnið til að komast að því hvaða reynslu þau hafa og hvað þau vita um efnið og skráir það niður. Vakinn er áhugi barnanna á viðfangsefninu með umræðum og hugstormun. Börnin segja frá sinni reynslu og sýna um leið hvaða skilning þau setja í hugtök sem fram koma. Bréf um verkefnið er sent heim til foreldra og þeir hvattir til að ræða um rannsóknarverkefnið við börnin og deila með þeim því sem við kemur efninu og upplifunum.

2. stig: Leitað er svara, athugað og skráð og hafðar umræður. Börnin fá tækifæri til að fara í vettvangsferðir og því er jafnvel komið í kring að þau geti talað við sérfræðinga um efnið. Kennarinn leggur til heimildir sem auðvelda börnunum rannsóknarvinnuna, t.d. bækur og alvöru hluti. Kennarinn hlustar á uppástungur barnanna og reynir aðframkvæma hugmyndir þeirra.

3. stig: Endurskoðun og mat fer fram og ákveðnir þættir eru valdir til kynningar fyrir aðra í leikskólanum og jafnvel foreldra. Lokahönd er lögð á verkefnið og kennarinn aðstoðar börnin við að velja efni til sýningar. (Leikskólinn Teigarsel, ed.)

6.3. Elstu börnin

Í starfi með elstu börnum leikskólans er lögð sérstök áhersla á að efla samskiptahæfni, hljóðkerfisvitund, tjáningu, rökhugsun og talnaskilning. Unnið er að öllum þessum þáttum í gegnum:

- Leikinn

- Hreyfingu

- Myndsköpun

- Tónlist

- Heimilisfræði

- Vettvangs- og gönguferðir

6.3.1. Samskiptahæfni

Samskipta- og félagsleg þjálfun fer annars vegar fram í hefðbundnum leikskólaverkefnum og þá skiptir mestu máli hvernig við stöndum að málum, bregðumst við og svörum - og hins vegar í sérstökum stundum með verkefnum sem búið er að skipuleggja með samskipta og félagslega þjálfun í huga s.s. fyrirmælaæfingum, kjarkæfingum, nálægðaræfingum og ekki síst hrósæfingum.

Stig af stigi kallast kennsluefni sem við notum til að efla félagsfærni barna. Það samanstendur af þremur þáttum, í fyrsta þættinum er fjallað um innlifun og/eða samkennd, í öðrum þætti læra börnin hvernig hægt er að leysa vandamál og hafa stjórn á hvatvísi og í þriðja þætti eru þeim kenndar aðferðir til að hafa stjórn á skapi sínu.

Með þessu:

- Styrkjum við sjálfsmynd barnanna.

- Börnin skilja mikilvægi fjölskyldu og vina.

- Börnin skilja mikilvægi reglna í skólanum, umferðinni og í samskiptum við aðra.

- Börnin læra að hrósa öðrum og að taka hrósi.

- Börnin læra að skilgreina eigin tilfinningar.

- Börnin æfa sig í að nota falleg orð um sjálfan sig.

- Börnin æfast í að setja sig í spor annarra og sýna samkennd (t.d. hugga og hjálpa).

6.3.2. Hljóðkerfisvitund og tjáning

Til að efla hljóðkerfisvitund og tjáningu er meðal annars unnið eftir áætlun úr bókinniMarkviss málörvun. (Helga Friðfinnsdóttir, Sigrún Löve, Þorbjörg Þóroddsdóttir, 2000). Unnið er í gegnum leiki til að ná athygli barnanna og vekja hjá þeim gleði og áhuga. Börnin læra að tjá sig, hlusta, efla einbeitingu, athygli, hugtakaskilning og félagsþroska. Einnig er stuðst við bókina Ljáðu mér eyra. HLJÓM2 próf er tekið af öllum elstu börnunum að hausti og síðan er unnið útfrá niðurstöðum með hvert og eitt.

Sögugrunnurinn (Guðrún Sigursteinsdóttir, Rannveig Oddsdóttir, 2005.) er nýtt kennsluefni sem eflir málþroska og frásagnarhæfni barna. Einnig vekur hann áhuga þeirra á ritmáli og hjálpar þeim að skilja tengslin milli talmáls og ritmáls. Börnin nota myndir til að segja sögur og þau læra að byggja upp söguþráð. Einnig er hægt að nýta Sögugrunninn til stafa og lestrarkennslu

Börnin kynnast rími, þulum, vísum, hrynjandi í töluðu máli, ljóðum, stafnum sínum og læra að skrifa nafnið sitt. Börnin eru þjálfuð í að tala fyrir framan hóp, syngja, segja sögu og tjá eigin tilfinningar. Börnin eru líka hvött til að semja sjálf sögur og vísur.

6.3.3. Rökhugsun og talnaskilningur

Unnið er eftir nýrri aðferð í stærðfræðikennslu ungra barna sem byggist á svokölluðum þrautalausnum; þraut er lögð fyrir hópinn og börnin hvött til að leysa þrautina og útskýra svo hvernig og hvaða

aðferð þau notuðu. Þessi aðferð samræmist svo áframhaldandi námsefni grunnskólans í stærðfræði þar sem bækurnar Eining ogGeisli eru notaðar.

Unnið er með:

 • Tölur og teninga
 • Para tölur og punkta
 • Venjuleg spil
 • Form og liti
 • Peninga og gildi þeirra
 • Ýmsar tegundir af kubbum
 • Tímatal; dagur, vika, mánuður, ár og sek, mín og klukkustundir.

7. Lotuvinna

Í Reykjakoti hefur skapast sú hefð að vinna að vissum verkefnum í ákveðinn tíma. Í lotunum eru teknir fyrir ákveðnir þættir sem lita starfið í hópatímunum. Settir eru upp hugmyndabankar sem hópstjórar geta gengið í og sótt innblástur fyrir hópatíma. Einnig fáum við gestakennara í lotuvinnuna sem kenna bæði börnum og kennurum nýja og skemmtilega leiki og veita okkur innblástur.

7.1. Tónlist

Markmið: Að börnin kynnist fjölbreyttri tónlist og undirstöðuatriðum tónlistar, s.s. hrynjandi, tónhæð, blæ og styrk.

Í tónlistarlotu er lögð sérstök áhersla á að öll börn leikskólans fái tækifæri til að njóta tónlistar og iðka hana. Söngur, hreyfing, hlustun og leikir með ýmsa hljóðgjafa eru helstu þættirnir í hópatímum barnanna í tónlistarlotu. Við búum til okkar eigin hljóðfæri, setjum upp sýningar og tengjum saman tónlist, tjáningu og leiklist. Allir hópar fá tækifæri til að sýna atriði á söngfundum sem haldnir eru vikulega. Einnig fáum við gesti á söngfundi og tónlistarkennara til að krydda tilveruna og koma með nýjar hugmyndir inn í starfið.

7.2. Hreyfing

Markmið: Að efla líkams- og hreyfiþroska barnanna.

Alla daga allan ársins hring er mikil áhersla lögð á hreyfingu í Reykjakoti en sérstök hreyfilota er alltaf einu sinni á ári. Börn hafa mikla þörf fyrir hreyfingu auk þess sem hún stuðlar að jákvæðni og gleði. Leikir sem reyna á líkamann veita barni útrás og efla þol þess og kraft. Í hreyfileikjum fær barn skilning á styrk sínum og getu og sjálfstraust þess vex. Samhæfing barnsins og jafnvægi eykst og barnið öðlast meiri sjálfsöryggi. Við förum í gönguferðir, fjallgöngur, þrautabrautir inni og úti, dans, fyrirmælaæfingar og ýmsa regluleiki. Við fáum til liðs við okkur íþróttakennara til að koma með nýjar hugmyndir sem lita starfið.

7.3. Umhverfi og náttúra

Markmið: Að börnin læri að umgangast náttúruna af virðingu og efla þekkingu þeirra á henni.

Í umhverfis- og náttúrulotu er aðaláherslan lögð á virðingu fyrir náttúrunni og að kveikja áhuga hjá börnum á þessu stórkostlega sköpunarverki. Börnin kynnast fjölbreytileika náttúrunnar m.a. með því að fara í kynnisferðir um nágrennið. Við setjum niður grænmeti og ræktum ýmis fræ, setjum niður ávaxtasteina og fylgjumst með þeim vaxa og dafna. Förum í gönguferðir niður að Varmá, veiðum hornsíli og fleira skemmtilegt sem lifir í ánni. Pöddur og skordýr eru skoðuð og gerðar ýmsar tilraunir s.s. með vatn og loft. Að hausti tökum við upp grænmetið, sultum ber úr garðinum og förum í berjamó upp í fjall.

7.4. Myndsköpun

Markmið: Að börnin fái tækifæri til frjálsrar myndsköpunar með fjölbreyttum efniviði.

Í myndsköpunarlotu er sérstök áhersla á skapandi starf í leikskólanum. Boðið er upp á fjölbreyttan efnivið en einnig nýtum við ýmislegt úr náttúrunni s.s. laufblöð, greinar, steina og ýmislegt fleira skemmtilegt. Við notum krítar, kol, ýmsar tegundir málningar, vaxliti, klessuliti og fjölbreytt úrval af pappír. Við leggjum áherslu á að hvert barn fái notið sín á eigin forsendum og gleðjist yfir listsköpun sinni. Börnin vinna bæði einstaklings- og hópverkefni og kíkja á myndlistar-sýningu í listasal bókasafns Mosfellsbæjar.

Myndsköpunarlotan endar svo með sýningu í öllum kjörnum leikskólans.

7.5. Tjáning og framkoma

Markmið: Að börnin læri sjálfstjórn, umburðarlyndi og að taka tillit til annarra. Einnig að þau skilji mikilvægi vináttu.

Mikilvægt er fyrir alla að æfa sig í tjáningu og framkomu. Við hvetjum börnin til að tjá skoðanir sínar og koma tilfinningum sínum í orð. Í tjáningar og framkomulotu æfa börnin sig sérstaklega í að tala fyrir framan aðra, fyrst bara að segja nafnið sitt, upp í að segja heilar sögur. Börnin æfa atriði eða leikrit sem þau sýna svo á söngfundi eða bjóða vinahóp sínum á sýningu. Stundum er foreldrum boðið í leikskólann á leiksýningar barnanna.

7.6. Samskipti og lífsleikni

Markmið: Að efla samskiptahæfni barnanna og virðingu þeirra hvort fyrir öðru.

Góð samskipti eru undirstaða leikskólastarfsins og þess að börnum líði vel í leikskólanum. Allir þurfa að æfa sig í samskiptum, hvernig koma á fram við aðra, taka tillit til annarra og vera öruggur með sjálfan sig og í framkomu. Við æfum okkur í því að sýna umburðar-lyndi gagnvart ólíkum skoðunum, menningu og reynslu. Við hvetjum börnin til að spyrja spurninga og leita svara. Sérstök áhersla er lögð á kynjablöndun og virðingu fyrir hinu kyninu. Allir eru vinir í Reykjakoti og ljúkum við þessari lotu á sérstakri vinaviku sem endar á hattadegi og balli í salnum.

8. Matseðlar/hollusta

Matseðill leikskólans hangir á upplýsingatöflum í fataklefum kjarnanna. Einnig er hægt að nálgast hann á heimasíðu leikskólans: www.leikskolinn.is/reykjakot. Leitast er við að bjóða upp á hollt og gott fæði fyrir börnin, ferskt hráefni og mikið af ávöxtum og grænmeti. Allir leikskólar Mosfellsbæjar eru þátt-takendur í heilsuátaki Lýðheilsustöðvar "Allt hefur áhrif – einkum við sjálf". Hægt er að nálgast upplýsingar um átakið á heimasíðu Mosfellsbæjar: www. mos.is.

9. Sérkennsla

Sérkennsla í Reykjakoti er á meginábyrgð sérkennslu-stjóra sem vinnur í náinni samvinnu við leikskólastjóra og kjarnastjóra allra kjarna. Sérkennslustjóri vinnur að málefnum einstakra barna sem þurfa á aðstoð að halda. Langflest þeirra sem þurfa á sérkennslu að halda í Reykjakoti þurfa aðstoð við málþroska. Sú aðstoð felur ýmist í sér að efla almennan málþroska, efla hljóðkerfisvitund eða æfa framburð á orðum og hljóðum. Það er því hlutverk sérkennslustjóra að vinna með þessum börnum, ýmist einum -eða í hópi, og undirbúa málörvunarstundir, framkvæma þær og meta.

Í sérkennslunni eru notuð ýmis gögn, aðallega málörvandi efniviður eins og ýmis konar spil, spjöld og bækur sem miða að því að efla mál barnanna.

Sérkennslustjóri heldur jafnframt utan um vinnuna með hverju barni fyrir sig með því að vera í samstarfi við utanaðkomandi sérfræðinga, s.s. sálfræðinga, talmeinafræðinga og fleiri. Sérkennsla allra barna er unnin í samstarfi við foreldra sem geta alltaf haft samband við sérkennslustjóra en einnig boðar hann til funda eins og þurfa þykir til þess að fara yfir stöðu mála og samræma alla þá aðila sem að barninu koma, hvort sem er innan eða utan leikskólans.

10. Heimasíðan www.leikskolinn.is/reykjakot

www.leikskolar.mos.is

Leikskólinn heldur úti glæsilegri heimasíðu sem hefur að geyma allar helstu upplýsingar um starfsemi leikskólans, fróðleik, fréttir, söngvasafn, skóladagatal, matseðil, upplýsingar um starfsfólk og ýmislegt fleira. Allar uppákomur í leikskólanum eru auglýstar á síðunni. Foreldrar leikskólabarnanna fá lykilorð að fjölskyldusíðunni þar sem hægt er að skoða fjöldann allan af myndum úr starfinu. Þar er einnig að finna símaskrá allra á kjarnanum. Á heimasíðunni eru gerðar mánaðarlegar kannanir á ýmsum þáttum sem snúa að uppeldi barna og leikskólastarfi. Við hvetjum fólk eindregið til að nýta sér þá möguleika sem heimasíðan býður upp á.

11. Foreldrasamvinna

Góð samvinna foreldra og starfsfólks er afar mikilvæg í öllu leikskólastarfi. Foreldrar og forráðamenn bera frumábyrgð á velferð barna sinna en leikskólinn veitir foreldrum stuðning í uppeldinu. Foreldrarnir þekkja börnin sín best en leikskólakennarar kynnast börnum í leikskólastarfi. Þeir þekkja þroska barnanna, færni og viðbrögð þeirra í hópi annarra barna. (Aðalnámskrá leikskóla, 1999.) Foreldrar eru ávallt velkomir í leikskólann til að fylgjast með og spjalla.

11.1. Foreldrafundir

Foreldrafundir eru haldnir í september ár hvert. Á þessum fundum er starfsemi leikskólans kynnt, atburðir á skóladagatali útskýrðir, sagt er frá heimasíðu skólans og starfsemi skólaskrifstofu. Mjög mikilvægt er að sem flestir foreldrar mæti á fundinn, sérstaklega þeir sem eru að koma með börnin sín í fyrsta skipti. Einnig kynnir hver kjarnastjóri áherslur í starfi síns kjarna og starfsfólk hvers kjarna kynnir sig. Að loknum fundi er boðið upp á hressingu. Þessir fundir eru haldnir í sal Varmárskóla.

11.2. Foreldrakaffi

Foreldrakaffi eru haldin a.m.k. tvisvar á ári, einu sinni á hvorri önn. Boðið er upp á kakó og meðlæti inni á öllum kjörnum og gefst foreldrum þá tækifæri til að koma með barninu sínu og fá sér hressingu, spjalla við starfsfólk, aðra foreldra og börn í góðu og rólegu andrúmslofti. Hópar geta ákveðið að útbúa eitthvað fyrir kaffið til að bjóða upp á. Stundum eru hengd upp listaverk eftir börnin eða ljósmyndir af börnunum úr starfinu og gefst þá foreldrum kostur á að fá betri innsýn í starfið.

11.3. Foreldraviðtöl

Foreldraviðtöl eru tvisvar á ári í Reykjakoti, í nóvember og mars/apríl. Viðtölin eiga að vera á léttu nótunum, þar sem farið er yfir gengi barnsins í leikskólanum, upplýsingum miðlað og rætt um barnið. Þessi viðtöl eru ekki til að taka á stórum vandamálum heldur frekar hugsuð sem létt spjall. Kennarar fylla út gátlista um hvert barn fyrir viðtölin og afhenda gátlistann í viðtalinu.

Ef erfið mál koma upp eða grunur leikur á að barn þurfi á sérfræðiaðstoð að halda eru foreldrar boðaðir sérstaklega í viðtal til hópstjóra/kjarnastjóra á öðrum tíma og ákvörðun tekin um framhaldið.

11.4. Foreldrafræðsla

Að vori býður Reykjakot foreldrum upp á fyrirlestur eða fræðslu af einhverju tagi. Oft er þessi fræðsla skipulögð í samvinnu við foreldrafélagið.

Skólaskrifstofan býður einnig upp á fræðslu-kvöld fyrir foreldra en þar er boðið upp á fjölbreytt erindi sem snúa að uppeldismálum.

12. Hefðir og hátíðir

12.1. Söngfundir

Söngfundir eru haldnir einu sinni í viku í leikskólanum. Þá koma börnin saman í salnum og syngja, dansa og hlusta á tónlist. Söngfundirnir eru mjög fjölbreyttir og skemmtilegir þar sem markmiðið er að hafa gaman og skemmta sér saman.

12.2. Dótadagur

Dótadagar eru í Reykjakoti einu sinni í mánuði. Þá er börnunum boðið að koma með eitt leikfang að heiman. Dótadagarnir eru frjálslegir dagar þar sem börnin leika með leikfangið sitt í hópatímum og allir æfa sig í að skiptast á. Valtímarnir eru með hefðbundnu sniði. Ekki er í boði að koma með dót að heiman aðra daga nema hóp- eða kjarnstjóri auglýsi það sérstaklega.

12.3. Náttfatadagur

Hefð hefur skapast fyrir náttfatadegi í Reykjakoti sem er venjulega í október eða nóvember. Þá er í boði að mæta á náttfötunum í leikskólann. Slegið er upp balli í salnum þar sem allir hittast, dansa og sprella.

12.4. Desemberdagskrá

Desemberdagskráin í Reykjakoti hefur verið að mótast síðustu ár og skapast hefur venja fyrir nokkrum atburðum sem tengjast jólahaldinu hjá okkur.

v Elsta árgangi er boðið á leiksýningu í Bókasafni Mosfellsbæjar.

v Næstelsti árgangur syngur á jólabasar Reykjalundar þar sem þeim er boðið upp á kakó og vöfflur.

v Þórdís Arnljótsdóttir mætir í Reykjakot með leikhús í tösku og töfrar fram af sinni alkunnu snilld Grýlu og alla jólasveinana 13. Ógleymanlegt leikrit, einfalt og flott þar sem börnin taka virkan þátt í sýningunni.

v Foreldrafélagið stendur fyrir ferð í Hamrahlíðarskóg (við rætur Úlfarsfells) þar sem börn og fullorðnir hjálpast að við að velja jólatré fyrir leikskólann. Jólasveinninn lætur sjá sig og aðstoðar við valið á trénu ásamt því að sprella með börnum og fullorðnum.

v Jólasöngfundir eru haldnir í sal leikskólans þar sem allir koma saman og syngja og dansa í kringum jólatréð. Jólasveinninn mætir og syngur og dansar með börnunum og færir þeim glaðning. Jólasöngfundirnir eru tveir, yngri börnin koma saman fyrir hádegi og þau eldri eftir hádegi.

v Elstu börn leikskólans æfa jóladagskrá og sýna fjölskyldum sínum. Einnig sýna þau dagskránna í salnum í Reykjakoti fyrir yngri börnin.

12.5. Þorrablót

Á bóndadaginn eru haldin þorrablót í Reykjakoti. Fyrst er söngfundur í salnum þar sem allir koma saman og syngja þorralög sem búið er að æfa síðustu daga. Börnin skarta þorrahöttum sem þau hafa sjálf útbúið. Í hádeginu er boðið upp á hefðbundinn þorramat og kjötsúpu. Mjög skemmtileg og hvetjandi stemning skapast og allir eru opnir og tilbúnir að smakka á kræsingunum.

12.6. Vinavika

Í febrúar er vinavika en þar er lögð sérstök áhersla á hinar margvíslegu hliðar vináttu. Allir eru vinir í leikskólanum. Vinahópar hittast og bjóða hverjir öðrum í heimsókn, útbúa eitthvað fallegt handa vinum sínum, hrósa o.fl. Við æfum okkur sérstaklega í að hugsa fallega til vina okkar og bera virðingu fyrir öðrum.

12.7. Hattadagur

Í lok vinaviku er hattadagur. Þá mega börnin koma með hatt í leikskólann eða vera með hatt sem þau hafa sjálf gert í leikskólanum. Við gerum okkur dagamun, leikum okkur með hattana og bjóðum vinum okkar í heimsókn til að sjá og sýna hattana.

12.8. Bolludagur

Á bolludag fá allir bollur. Það eru fiskibollur í matinn og allir fá rjómabollu í hádeginu eða í nónhressingunni.

12.9. Sprengidagur

Allir borða saltkjöt og baunir (túkall) í hádeginu. Gaman er að ræða við börnin um að á þessum degi eigi allir að borða svo mikið að maginn á þeim springi! Sprengidagur er síðasti dagur fyrir páskaföstu.

12.10. Öskudagur

Allir hlægja á öskudaginn í Reykjakoti því þá er sko líf í tuskunum. Börnin mega koma í grímubúningum og með fylgihluti. Við virðum bæði stúlkna- og drengjamenningu með því að leyfa báðum kynjum að mæta með tilheyrandi fylgihluti með búningum sínum. Stúlkur mega mæta með kórónur, töfrasprota og puntudót og drengir með sverð, byssur og skildi. Starfsfólk er sérstaklega hvatt til að mæta í búningum eða furðufötum. Slegið er upp balli í salnum þar sem allir sýna sig og sjá aðra, dansa og skemmta sér.

12.11. Búningadagur

Hefð hefur skapast fyrir því að halda búningadag tveimur vikum eftir öskudag. Nú fá allir að mæta aftur í leikskólann í uppáhalds búningnum sínum og leika við vini sína.

12.12. Menningarvika

Í lok apríl er haldin menningarvika leikskóla Mosfellsbæjar. Öll börn í leikskólum Mosfellsbæjar útbúa listaverk sem farið er með niður í Kjarna þar sem sett er upp allsherjar sýning. Verkin eru mjög fjölbreytt og gefa góða mynd af því frábæra starfi sem unnið er í leikskólum Mosfellsbæjar.

Hver árgangur fer svo niður í Kjarna á ákveðnum tíma, hittir jafnaldra úr hinum leikskólunum, skoðar sýninguna og syngur nokkur lög.

Menningarvikan er vel auglýst og eru foreldrar hvattir til að mæta og sjá börnin sín syngja í Kjarnanum og skoða sýninguna.

12.13. Sveitaferðir

Á vorin fara börnin í sveitaferð í boði leikskólans. Þetta eru hálfsdagsferðir þar sem farið er með rútu frá Reykjakoti að sveitabæ í nágrenni Mosfellsbæjar. Dýrin eru skoðuð og allir fá tækifæri til að leika sér í guðsgrænni náttúrunni. Foreldrum býðst að koma með í ferðina en þeir þurfa að greiða fyrir sig.

12.14. Vorhátíð

Á laugardegi í enda maí eða í byrjun júní heldur foreldrafélagið vorhátíð í leikskólanum. Hátíðin er mjög skemmtilegur atburður þar sem elstu börn skólans sýna atriði, boðið er upp á andlitsmálningu, grillaðar pylsur og svaladrykki og farið er í skemmtilega hópleiki.

12.15. Afmæli

Þegar barn á afmæli er haldið upp á það í leikskólanum. Barnið kemur ekki með neitt að heiman, heldur gerum við okkur dagamun á okkar forsendum. Útbúin er kóróna fyrir afmælisbarnið, sunginn afmælissöngur og það tollerað (ef það vill). Í hópatíma gerir barnið kókoskúlur eða bakar köku ásamt hópnum sínum. Afmælisbarnið býður síðan öllum börnunum í kjarnanum upp á kræsingarnar.

12.16. Útskriftarferð

Daginn fyrir uppstigningardag er farið í útskriftarferð með elstu börn leikskólans. Farið er að morgni og komið aftur um kl. 17. Venjan er að fara í náttúruskoðun s.s. fjöruferð, síðan er farið á safn og í heimsókn í leikskóla.

13. Hagnýtar upplýsingar

13.1. Útbúnaður barna

Mikilvægt er að barnið hafi þau útiföt sem henta hverju sinni. Í töskunni verður alltaf að vera pollagalli, stígvél, þykk peysa (flíspeysa), ullarsokkar, vettlingar og aukaföt s.s. nærföt, sokkar, sokkabuxur (gammosíur), buxur og peysa. Einnig er gott að hafa meðferðis auka vettlinga og húfu ef blautt og kalt er í veðri.

13.2. Merkingar

Afar mikilvægt er að merkja föt barnanna því það er alltaf leiðinlegt þegar eitthvað týnist. Nær ógjörningur er fyrir starfsfólk að þekkja öll fötin en merkingar auðvelda okkur mjög starfið. Við bendum á fatatúss og merkingar frá fyrirtækinu Rögn, þær má nálgast á netinu á www.rogn.is eða á eyðublöðum sem fást í kjörnunum.

13.3. Kveðjustundir í fataklefa

Ef kveðjustundir verða of langar getur það skapað óöryggi hjá barninu sem veit ekki nákvæmlega hvort mamma eða pabbi ætla að stoppa í fataklefanum eða ekki. Vegna þessa hvetjum við foreldra til að hafa kveðjustundirnar stuttar, öruggar en fullar af trausti. Munum að kveðjustundin lengir ekki jákvæða samveru fjölskyldunnar heldur lengir á skilnaðarstund sem getur verið barninu erfið.

13.4. Börnin sótt

Mikilvægt er að börnin séu sótt á réttum tíma. Ef einhver annar aðili en foreldrar sækja barnið verður að láta starfsfólk kjarnans vita. Aðeins þeir sem verða 12 ára á árinu og eldri mega sækja börn í leikskólann. (Gunnhildur Sæmundsdóttir, Herdís L. Storgaard, Lovísa Hallgrímsdóttir og Margrét Pála Ólafsdóttir, 2001.)

13.5. Veikindi/slys

Leikskólinn getur ekki tekið á móti veiku barni. Nauðsynlegt er að barnið jafni sig vel af veikindunum heima og mæti aftur í leikskólann frískt og tilbúið að taka þátt í daglegri starfsemi úti sem inni. Mikilvægt er að veikindi séu tilkynnt. Ef barn veikist í leikskólanum ber starfsmanni að láta foreldri/forráðamann vita. Börnum eru ekki gefin lyf í leikskólanum nema brýna nauðsyn beri til. Ef óhapp eða slys ber að höndum eru foreldrar tafarlaust látnir vita. Foreldrar sækja barnið og bera ábyrgð á áframhaldandi meðhöndlun. Ef ekki næst í foreldra fer kennari með barnið til meðhöndlunar í leigubíl eða sjúkrabíl eftir eðli slyssins. Ef um lífshættuleg slys er að ræða eru tilkynningar í höndum áfallateymis slysadeildar Landspítala Háskóla-sjúkrahúss. (Gunnhildur Sæmundsdóttir o.fl., 2001.)

13.6. Mætingar barna

Best er fyrir barnið að mæta ávallt á sama tíma í leikskólann. Börn eru vanaföst og það skapar öryggi fyrir barnið að vita alltaf hvert dagskráin er komin þegar það mætir.

13.7. Leikföng að heiman

Öll leikföng að heiman eiga að vera heima. Ef barn kemur sífellt með leikfang að heiman skapar það óþægindi bæði fyrir hin börnin og kennarana. Gott er að börnin venjist því strax í byrjun að dótið þeirra á að vera heima. Reglulega eru haldnir dótadagar þar sem börnin mega koma með dót í leikskólann. Kelidýr og dót sem börn þurfa sér til halds og trausts í hvíld eru að sjálfsögðu velkomin, einnig er velkomið að hafa með sér kelidýr, ef með þarf, þegar börn eru í aðlögun.

13.8. Skóladagatal

Á hverju hausti er haldinn foreldrafundur. Þar er starfsemi leikskólans kynnt og fá foreldrar skóladagatal Reykjakots afhent. Á því geta foreldrar séð dagskrá skólaársins, fyrirhugaðar uppákomur, skemmtanir, foreldrakaffi, foreldrafundi, fræðslufundi, námskeiðs-dag, skipulagsdaga o.fl. Skipulagsdagar eru tveir, einn á hvorri önn og einn námskeiðsdagur á haustönn. Þessa daga er leikskólinn lokaður. Hægt er að nálgast skóladagatalið á heimasíðunni.

13.9. Útskriftarbækur

Öll börn í Reykjakoti safna ljósmyndum, myndverkum og minningum í útskriftarbækur. Þegar barn útskrifast frá leikskólanum fær það með sér þessa bók sem sýnir þróunina í teikningum barnsins ásamt mörgu öðru sem það hefur verið að fást við. Bókin er mjög metnaðarfull og eiguleg og gefur skemmtilega mynd af veru barnsins í Reykjakoti.

14. Rekstraraðili

Rekstraraðili Reykjakots er Mosfellsbær. Reykjakot heyrir undir fræðslu- og menningarsvið bæjarins. Forstöðumaður sviðsins er Björn Þráinn Þórðarson.

14.1. Skólaskrifstofa

Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar starfar innan fræðslu- og menningarsviðs bæjarins. Starfsmenn hennar hafa skrifstofur á bæjarskrifstofunum í Kjarna. Skólaskrifstofan annast rekstur, stjórnsýslu og þjónustu vegna uppeldis- og menntamála bæjarins. Skólaskrifstofa fylgist með framkvæmd skólahalds og hefur yfirumsjón með áætlanagerð og eftirlit með skólastarfi.

14.2. Leikskólafulltrúi

Leikskólafulltrúi Mosfellsbæjar er Gunnhildur María Sæmundsdóttir og starfar hún á leikskólasviði skólaskrifstofu. Hlutverk leikskólafulltrúa er að hafa yfirumsjón með öllu leikskólahaldi í Mosfellsbæ. Í því felst m.a. að hafa umsjón með uppeldisstarfi, sérfræðiþjónustu, biðlistum og úthlutun plássa. Einnig sér leikskólafulltrúi um þróunarverkefni sem skóla-skrifstofan stendur fyrir og endur- og símenntun starfsmanna. Leikskólafulltrúi veitir leikskólum ráðgjöf og stuðlar að samvinnu þeirra við aðra skóla bæjarins s.s. listaskóla og grunnskólana.

14.3. Sérfræðiþjónusta

Á skólaskrifstofu starfa tveir sálfræðingar. Til þeirra geta foreldrar og uppeldisstéttir leitað vegna ýmissa erfiðleika barna. Sálfræðingarnir sinna sálfræðilegum og kennslufræðilegum athugunum og greiningu á vanda barna. Einnig veita þeir foreldrum, börnum og uppeldisstéttum ráðgjöf og stuðning. (Vefur Mosfellsbæjar, ed.)

15. Samvinna við aðrar stofnanir

15.1. Grunnskólar

Í Mosfellsbæ eru tveir grunnskólar, Lágafellsskóli og Varmárskóli. Reykjakot tekur þátt í verkefninu Brúum bilið með þeim þar sem leitast er við að útbúa tengingu á milli leik- og grunnskóla og auðvelda börnum þá breytingu sem því fylgir að færast á milli skólastiga. (Skólastefna Mosfellsbæjar, 2002.) Elstu börn leikskólans fara í heimsóknir í þann skóla sem þau munu koma til með að fara í þegar grunnskólaganga hefst. Einnig eru haldnir fundir að vori með kennurum og skólastjórnendum grunn-skólanna varðandi mál einstakra nemenda sem þurfa sér stuðning í skóla. Mikil samvinna er á milli kennara 1. bekkinga í Varmárskóla og starfsmanna leikskóladeildar Reykjakots í Varmárskóla. Börnin fara m.a. í gagnkvæmar heimsóknir, 1. bekkingar í leikskóladeildina og börn frá leikskóladeildinni í 1. bekkina. Einnig fara þau í sveitaferð saman á vorin.

15.2. Íþróttahús

Elstu börn leikskólans fara í íþróttir vikulega í íþróttahúsinu að Varmá. Á vorin býðst okkur að koma með hópa á íþróttavöllinn og grilla og skemmta okkur.

15.3. Listaskóli

Mikil samvinna er við tónlistardeild Listaskóla Mosfellsbæjar og hafa elstu börnin farið í heimsóknir þangað, skoðað skólann, kynnst starfinu og fengið að prófa hljóðfæri. Tónlistarkennari frá skólanum hefur komið tvisvar í viku í leikskólann og verið með tónlistarstundir fyrir elstu börnin.

16. Mat á leikskólastarfi

Sérhver leikskóli á samkvæmt lögum að móta sér aðferð til að meta uppeldisstarfið. Uppeldisstarf í Reykjakoti er metið reglulega með ýmsum hætti

16.1. Ársskýrsla

Í ágúst ár hvert skilar leikskólinn ársskýrslu til leikskólafulltrúa þar sem fram koma markmið næsta skólaárs og hvernig markmið síðasta skólaárs náðust. Einnig er þar að finna tölulegar upplýsingar um starfsemina.

16.2. Foreldrakönnun

Að vori annað hvert ár er gerð könnun þar sem foreldrar leikskólabarnanna fylla út spurningalista og skila til leikskólans. Sú könnun gefur okkur góða sýn á hvar við erum að gera vel og hvar við getum bætt okkur.

16.3. Kannanir á heimasíðunni

Í hverjum mánuði eru gerðar kannanir á heimasíðu Reykjakots (www.leikskolinn.is/reykjakot) þar sem spurt er út í hin ýmsu mál sem snúa að leikskólastarfi.

16.4. Hópa- og valtímatalning

Kjarnastjórar telja reglulega út val og hópatíma barnanna. Þá gefst foreldrum kostur á því að sjá hvað barnið hefur helst áhuga á að gera í leikskólanum.

16.5. Matslistar og próf

Gátlistar. Fyrir foreldraviðtöl fylla hópstjórar út gátlista um hvert barn fyrir sig.

Íslenski þroskalistinn er þroskapróf fyrir börn frá 3-6 ára sem móðir fyllir út ef talin er þörf á.

Smábarnalistinn er þroskapróf fyrir börn frá 15 mánaða til 3 ára sem móðir fyllir út ef talin er þörf á.

Orðaskil er málþroskapróf fyrir yngstu börnin sem kannar orðaforða.

HLJÓM2 er próf sem lagt er fyrir elstu börn leikskólans. HLJÓM2 metur hljóðkerfisvitund þeirra og niðurstöður úr því geta gefið vísbendingu um hvernig lestrarnám muni koma til með að ganga.

Lokaorð

Ábyrgðarmaður námskrárinnar er Gyða Vigfúsdóttir leikskólastjóri en námskráin er unnin af Herdísi Rós Kjartansdóttur aðstoðarleikskólastjóra. Einnig komu starfsmenn Reykjakots að námskrárgerðinni með ýmsum hætti. Mikið faglegt starf er unnið í Reykjakoti og var ásamt heimilda sem getið er í heimildaskrá leitað fanga í ýmsum námsgögnum sem kennarar skólans hafa unnið í gegn um árin.

Heimildaskrá

Aðalnámskrá leikskóla. (1999). Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Fræðsluvefur Hjallastefnunnar (ed). Vefslóð sótt 29. mars 2006, 30. mars 2006, 31. október 2006, frá

http://www.hjalli.is/fraedsla/

Guðrún Sigursteinsdóttir og Rannveig Oddsdóttir. (2005). Sögugrunnur, námstæki til sögugerðar. Kennsluleiðbeiningar. Reykjavík: Höfundar.

Gunnhildur Sæmundsdóttir, Herdís L. Storgaard, Lovísa Hallgrímsdóttir, Margrét Pála Ólafsdóttir. (2001). Árvekni, ábyrgð og yfirsýn. Öryggisreglur fyrir leikskóla Mosfellsbæjar. Mosfellsbæ: Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar.

Helga Friðfinnsdóttir, Sigrún Löve, Þorbjörg Þóroddsdóttir. (2000). Markviss málörvun, þjálfun hljóðkerfisvitundar. Reykjavík: Námsgagnastofnun.

Leikskólinn Stakkaborg (ed). Vefslóð sótt 30. október 2006, frá

http://gamli.leikskolar.is/leikskolar/displayer.as...

Leikskólinn Teigarsel Akranesi (ed). Vefslóð sótt 30. október 2006, frá

http://www.akranes.is/teigasel/hateigur/htkonnunar...

Lög um leikskóla nr. 78/1994. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Margrét Pála Ólafsdóttir. (1999). Hjallastefnan. Leikskóli frá hugmynd til
framkvæmda. Handbók
. Reykjavík: Hjallastefnan ehf.

Skólastefna Mosfellsbæjar, Heildstæð skólastefna.(2002). Mosfellsbær: Skólaskrifstofa Mosfellsbæjar.

Vefur Mosfellsbæjar (ed). Vefslóð sótt 10. nóvember 2006, fráhttp://www.mos.is/Default.asp?Sid_Id=1256&tId=1&Tr...|004|&qsr
© 2016 - 2021 Karellen